Þekktir munkar skrifa bækur
Flestir hinna fáu nafngreindra skrifara frá miðöldum eru munkar. Sagt er frá því í biskupasögum að nafngreindir munkar hafi skrifað bækur sem varðveist hafa til dagsins í dag. Einn þessara munka var ábóti á Þingeyrum á 12. öld og hét Karl Jónsson. Hann sigldi til Noregs til þess að skrifa sögu Sverris sem þá var konungur í Noregi. Hann dvaldi þar um tíma til að kynna sér aðstæður og afla efnis í söguna. Tveir aðrir Þingeyrarmunkar, Oddur Snorrason og Gunnlaugur Leifsson, fengust einnig við bókagerð og skrifuðu sitt hvora söguna um Ólaf Tryggvason Noregskonung, önnur var á latínu, miðaldamáli evrpópsku kirkjunnar á þessum tíma, en hin á íslensku. Gunnlaugur skrifaði fleiri sögur, þ.á m. sögu Jóns helga Ögmundarsonar Hólabiskups.

Fleiri skrifarar eru þekktir frá seinni öldum. Jón Arason biskup og synir hans tveir skrifuðu á 16. öld margar bækur. Jón var síðasti kaþólski biskupinn og sá sem flutti inn fyrstu prentvélina.

Afkastamiklir skrifarar úr röðum leikmanna
Fáir atvinnuskrifarar eru þekktir úr röðum leikmanna frá fyrri öldum. Afkomendur Lofts ríka sem uppi var á 15. öld voru mikilvirkir skrifarar og því stundum haldið fram að sú ætt hafi átt stóran þátt í því að bókagerð í landinu hafi lifað svarta dauða af. Tveir synir Lofts stunduðu skriftir, Ormur skrifaði aðeins heilagra manna sögur en Ólafur bróðir hans einbeitti sér að ritun Íslendingasagna. Þó svo að Ormur hafi haft mikinn áhuga á helgum mönnum ef marka má efnisval hans var hann þó ekki prestur frekar en bróðir hans sem hreifst meira af Íslendingasögum. Gott er að hafa í huga að sögur af heilögum mönnum og konum voru feikimikilvægar í kaþólskri tíð og því ekki að undra þótt óprestlærðir menn hefðu áhuga á að skrifa þær upp.

Alþýðumaðurinn Bjarni Jónsson skrifaði á 16. öld margar lögbækur en það má sjá af spássíugrein á einni þeirra þar sem stendur skrifað: Er þessi hin átjánda af hendi skrifarans. Aðeins er vitað um tvær þessara átján bóka sem gefur e.t.v. vísbendingu um hina mikla eyðingu handrita sem átt hefur sér stað í gegnum aldirnar. Jafnframt má vera að Bjarni þessi hafi skrifað fleiri en 18 bækur.