Heimildir um svarta dauða

Í Nýja annál segir frá komu svarta dauða
1402 . . . Útkoma herra Vilchins í Austfjörðum með heilu og höldnu. Item (einnig) kom út í Hvalfirði Einar Herjólfsson með það skip, er hann átti sjálfur. Kom þar út í svo mikil bráðasótt, að menn lágu dauðir innan þriggja nátta, þar til er heitið var þremur lofmessum með sæmilegu bænahaldi og ljósbruna. Item var lofað þurrföstu fyrir kyndilmessu en vatnfasta fyrir jól ævinlega. Fengu síðan flestir skriftamál, áður en létust. Gekk sóttin um haustið fyrir sunnan land með svo mikilli ógn, að aleyddi bæi víða en fólkið var ekki sjálfbjarga, það eftir lifði, í mörgum stöðum. Síra Áli Svarthöfðason deyði fyrst af kennimönnum um haustið og þar næst bróðir Grímur, kirkjuprestur í Skálholti, síðan hver eftir annan heimapresta, síra Höskuldur ráðsmaður á jóladaginn sjálfan. Aleyddi þá þegar staðinn að lærðum mönnum og leikum fyrir utan biskupinn sjálfn og tvo leikmenn.

1403. Manndauðaár hið mikla á Íslandi. Obitus (andlát) Páls ábóta í Viðey. . . Obitus herra Runólfs af Þykkvabæ og sex bræðra en aðrir sex lifðu eftir. Obitus Halldóru abbadísar í Kirkjubæ og sjö systra, en sex lifðu eftir. Vígð frú Guðrún abbadís Halldórsdóttir. Eyddi staðinn þrjá tíma að manfólki, svo að um síðir mjólkuðu systurnar kúfénaðinn, þær er yngri voru, og kunnu flestallar lítið til, sem von var, er slíkan starfa höfðu aldrei fyrri haft. Komu þar til kirkju hálfur átti tugur hins sjöunda hundraðs dauðra manna, svo talið varð en síðan varð ekki reiknað fyrir mannfjölda sakir, svo deyðu margir síðan. Item hið sama ár eyddi staðinn í Þykkvabæ þrisvar að manfólki, svo ekki var eftir nema tveir bræður, svo heima væri, og einn húskarl staðarins, og hann bar matinn fyrir þá og þá til komu. Obitus herra Þorsteins ábóta að Helgafelli og Gísla Svartssonar frá Reykhólum, Jóns Guttormssonar í Hvammi og Þórðar undan Núpi og Páls Þorvarðssonar frá Eiðum austan og Cecilíu Þorsteinsdóttur, hans húsfrú.

1404. Manndauðavetur hinn síðari. Eyddi þá enn staðinn í Skálholti þrjá tíma að þjónustufólki. Deyði þar þá þrír prestar og mesti hlutur klerka. Tveir prestar lifðu eftir, bróðir Þorfinnur kirkjuprestur og Þórarinn prestur Andrésson, er þá var capellanus biskupsins, herra Vilchins.