Uppskriftir á pappír af Íslendingabók Ara fróða

Íslendingabók  í uppskrift Jóns Erlendssonar
Íslendingabók Ara fróða og ein gerð Landnámu hafa einungis varðveist í uppskriftum á pappír sem Brynjólfur Skálholtsbiskup lét gera en skinnbækurnar sem skrifað var eftir glötuðust. Skrifarinn, séra Jón Erlendsson frá Villingaholti, lagði sig fram um að fylgja forritinu af nákvæmni og stældi jafnvel skrift þess frekar en að nota þá skrift sem tíðkaðist á hans tíma. Hann skrifaði a.m.k. tvær uppskriftir af Íslendingabók og þykir sú sem merkt er safnmarkinu AM 113 b fol. betri. Á myndinni sést uppskrift frá hendi Jóns ásamt fleiri pappírsuppskriftum af Íslendingabók, allar undir sama safnmarki AM 113 fol. en síðan aðgreindar með bókstöfunum a-k. Fleiri 17. aldar uppskriftir Íslendingabókar eru reyndar varðveittar, flestar þeirra skrifaðar eftir uppskrift Jóns.