Viltu vita meira um norðlenska Benediktínaskólann?

Bergur Sokkason ábóti á Munkaþverá (d. 1350 ) setti saman Nikulás sögu erkibiskups og Mikaels sögu höfuðengils. Honum hafa verið eignuð mun fleiri verk, sögur af innlendum biskupum og frumsamdar riddarasögur. Árna Lárentíussyni, biskupssyni og munki á Þingeyrum (d. eftir 1337), eru eignaðar þýðing Dunstanus sögu og mögulega ein gerð Jóns sögu helga. Arngrímur Brandsson (d. 1361) prestur í Odda og síðar ábóti á Þingeyrum orti drápu um Guðmund góða Hólabiskup (d. 1237) og setti auk þess saman Guðmundarsögu D, eina af fjórum sögum sem áttu að staðfesta helgi hans. Þrjár eru varðveittar í handritum frá 14. öld en C-sagan aðeins til í pappírsafritum frá 17. öld.

Brandur, Árni og Arngrímur lærðu hjá Jóni Halldórssyni Skálholtsbiskupi (d. 1339) eða Lárentíusi Kálfssyni Hólabiskupi (d. 1331) sem voru samtíða biskupar landsins. Jón var norskur, e.t.v. af íslensku móðerni, og ólst upp í Dóminíkanaklaustri í Björgvin. Hann gekk ungur í regluna en lærði guðfræði í París og kirkjurétt í Bologna á Ítalíu áður en hann var vígður til Skálholts 1322. Jóni er eignuð Klári saga sem er þýdd riddarasaga eftir latínukvæði sem hann fann að sögn í Frakklandi. Hún er talin elst sagna af brúðarleit og felur í sér boðskap um ‘rétta hegðun kvenna’ í anda kristinna dæmisagna. Jón gæti einmitt hafa stuðlað að þýðingum eða ritun slíkra dæmisagna eða ævintýra (exempla) sem fyrst var safnað sérstaklega á bækur á 14. öld. 

Viltu vita meira um Stjórn og Stjórnarhandrit?

Stjórn er samsteypa þriggja þýðinga á nokkrum bókum Gamla testamentisins, ásamt trúfræðilegum skýringum, sem varð til á 13. og 14. öld. Nafnið Stjórn kemur fyrir á 16. öld en ekki útilokað að það sé eldra, merkingin er óviss en gæti vísað til stjórnar guðs á veröldinni. Texti Stjórnar nær frá 1. Mósebók til loka Konungsbóka en skýringarnar eru einkum sóttar til lærdómsverkanna Historia scholastica eftir Petrus Comestor (d. 1179) og Speculum historiale eftir Vincent frá Beauvais (d. 1264).

Þrjú 14. aldar handrit Stjórnar eru varðveitt AM 226 fol., AM 227 fol. og AM 228 fol, öll vegleg en misheil, auk nokkurra brota í AM 229 I-III fol:

Smelltu á myndina
Formáli Flateyjarbókar.

Viltu vita meira um formála Flateyjarbókar?
Í formála Flateyjarbókar kemur fram fyrir hvern hún var gerð og hverjir skrifuðu hana og skreyttu en óvenjulegt er að slíkar upplýsingar fáist í íslenskum handritum. Inni í bókinni stendur að hún sé skrifuð árið 1387 en annáll í henni nær allt til 1394. Vandað var til Flateyjarbókar og hún er gott dæmi um auð sumra Íslendinga á 14. öld, sem og gildi bókagjafa á þeim tíma, þar sem hún átti e.t.v. að vera konungsgersemi.

Tveir prestar, Jón Þórðarson og Magnús Þórhallsson, skrifuðu bókina og annar lýsti hana alla. Jón skrifaði sögur um Eirík víðförla, Ólaf Tryggvason trúboðskonung og Ólaf helga Haraldsson. Magnús skrifaði aðra hluta, t.a.m. sögur konunganna Sverris, Hákonar gamla og Magnúsar lagabætis, nokkra þætti og annál sem nær fram á hans daga. Hann lýsti einnig alla bókina og skrifaði rauðar fyrirsagnir. Rithönd og lýsingar Magnúsar hafa fundist í fleiri handritum og -brotum sem bendir til þess að hann hafi starfað að bókagerð. Prestarnir hafa leyst verk sitt vel af hendi, Flateyjarbók er fagurlega skreytt og skrifuð.

Þorleifur Björnsson hirðstjóri á Reykhólum (d. 1486) lét bæta 23 blöðum við bókina á 15. öld með sögum Magnúsar góða og Haraldar harðráða og tengdum þáttum. Þorleifur hefur trúlega komið að fleiri bókum, í íslenskri lækningabók (MS Royal Irish Academy 23 D 43) í Dublin stendur: Hér hefir læknabók Þorleifs Björnssonar. Í bókinni eru læknisráð, lyfjafræði, töfraþulur og mataruppskriftir og þykir hún ítarlegri en aðrar varðveittar lækningabækur miðalda á Norðurlöndum.

Formáli Flateyjarbókar (með nútímastafsetningu)
Þessa bók á Jón Hákonarson. Er hér fyrst á kvæði, þá hversu Noregur byggðist, þá frá Eireki víðförla, þar næst frá Ólafi konungi Tryggvasyni með öllum sínum þáttum. Því næst saga Ólafs konungs hins helga Haraldssonar með öllum sínum þáttum og þar með sögur Orkneyjajarla. Þá er Sverris saga. Þar eftir Hákonar saga gamla með sögu Magnúsar konungs, sonar hans. Þá er þáttur Einars Sokkasonar af Grænlandi. Þar næst frá Helga og Úlfi hinum illa. Þá hefur upp annál þegar heimurinn er skaptur; tekur hann allt til þess er nú er komið heimstöðunni. Hefir skrifað Jón prestur Þórhallsson frá Eireki víðförla og Ólafs sögurnar báðar, en Magnús prestur Þórhallsson hefir skrifað upp þaðan og svo það er fyrr er skrifað og lýst alla. Gleði guðs allsvaldandi þá er skrifuðu og þann er fyrir sagði og jómfrú sankta María.