Um gerðir Landnámu

Landnámabók er varðveitt í fimm gerðum, þremur fornum og tveimur samsteypum frá 17. öld. Samband gerðanna hefur lengi verið fræðimönnum hugleikið, sem og tilgangur ritunar þeirra. Gerðir Landnámu eru:

Sturlubók – sögð samin af Sturlu Þórðarsyni lögmanni og sagnaritara (d. 30. júlí 1284). Skinnhandrit með texta Sturlubókar brann árið 1728 í Kaupmannahöfn en textinn er varðveittur í uppskrift séra Jóns Erlendssonar, AM 107 fol. frá 17. öld.

Hauksbók – Landnámugerð Hauks Erlendssonar lögmanns, rituð á árunum 1302-10, er elsta varðveitta handrit Landnámabókar, AM 371 4to. Haukur segir í eftirmála að hann hafi sett textann saman „eftir þeirri bók, sem ritað hafði herra Sturla lögmaður ... og eftir þeirri bók annarri, er ritað hafði Styrmir hinn fróði“ (Styrmir fróði Kárason d. 1245). Á 17. öld afritaði séra Jón Erlendsson Landnámu í Hauksbók, sem þá vantaði í tvö blöð, og er uppskriftin varðveitt í AM 105 fol.

Melabók – er nefnd Melabók vegna ættrakninga til Melamanna í textanum. Af henni eru aðeins varðveitt tvö skinnblöð, AM 445 b 4to, frá f.hl. 15. aldar. Á 17. öld var handritið heillegra og notað við samningu annarrar af yngri gerðum Landnámu. Textinn þykir ekki góður en Melabók er talin hafa staðið nærri texta Styrmisbókar og besti fulltrúi hennar sem varðveist hefur.

Skarðsárbók – er samsteypugerð af Landnámu úr Sturlubók og Hauksbók, tekin saman af Birni Jónssyni á Skarðsá (1574 – 1655). Hann hefur haft aðgang að uppskriftum sr. Jóns Erlendssonar af báðum gerðunum og stundum getað lesið skinnhandritin betur og réttar en Jón. Frumrit Skarðsárbókar brann með hluta af safni Árna Magnússonar 1728. Mörg afrit hennar hafa varðveist, merkast þykir uppskrift Ásgeirs Jónssonar í AM 104 fol. sem er beint afrit af frumriti Björns.

Þórðarbók – sett saman af sr. Þórði Jónssyni í Hítardal (d. 1670). Hann lagði handrit af Skarðsárbók til grundvallar en bætti við orðamun og viðbótum úr Melabók sem þá var heillegri. Þórðarbók er til í frumriti, í AM 106 og 112 fol. Gildi hennar felst ekki síst í því að þar eru varðveittir texta úr hlutum Melabókar sem nú eru glataðir en auðvelt er að aðgreina með samanburði við texta Skarðsárbókar.

Heimild: Jakob Benediktsson. Íslendingabók. Landnámabók. Inngangur, bls. L-LVII.