Hávamál

Hávamál er spekikvæði í 164 erindum, lagt Óðni í munn og varðveitt í Konungsbók eddukvæða, Gks. 2365 4to. Þótt Hávamál séu skráð sem eitt kvæði í Konungsbók er óvíst hvort kvæðið hafi verið heilsteypt verk frá öndverðu eða hvort skrifari eða ritstjóri Konungsbókar eiga þar hlut að máli.

Fræðimenn hafa skipað Hávamálum niður í fimm þætti eftir efni:
Gestaþátt, reglur og speki fyrir daglegt líf (v. 1-77).
Dæmi Óðins, hugleiðingar um ástina frá sjónarhóli karla (v. 78-110).
Loddfáfnismál, þar sem lærdómi Óðins er beint til Loddfáfnis (v. 111-137).
Rúnatal, sem lýsir því hvernig Óðinn öðlaðist visku (v. 138-145).
Ljóðatal, þar sem galdrakunnátta hans er rakin (v. 146-164).

Í 80. vísu Hávamála segir svo um rúnir:

Það er þá reynt,
er þú að rúnum spyr
inum reginkunnum,
þeim er görðu ginnregin
og fáði fimbulþulur,
þá hefir hann bast ef hann þegir.

Í Rúnatali Hávamála, vísum 138-145, segir um sjálfsfórn Óðins og rúnir:

Veit eg að eg hékk
vindgameiði á
nætur allar níu,
geiri undaður
og gefinn Óðni,
sjálfur sjálfum mér,
á þeim meiði
er manngi veit
hvers hann af rótum renn.

Við hleifi mig seldu
né við hornigi,
nýsta eg niður,
nam eg upp rúnar,
æpandi nam,
féll eg aftur þaðan.

Fimbulljóð níu
nam ef af inum frægja syni
Bölþorns Bestlu föður,
og eg drykk of gat
ins dýra mjaðar,
ausin Óðreri.

Þá nam eg frævast
og fróður vera
og vaxa og vel hafast.
Orð mér af orði
orðs leitaði,
verk mér af verki
verks leitaði.

Rúnar munt þú finna
og ráðna stafi,
mjög stóra stafi,
mjög stinna stafi
er fáði fimbulþulur
og görðu ginnregin
og reist Hroftur rögna,

Óðinn með ásum,
en fyr álfum Dáinn,
Dvalinn dvergum fyrir,
Ásviður jötnum fyrir,
eg reist sjálfur sumar.

Veistu hve rísta skal?
Veistu hve ráða skal?
Veistu hve fá skal?
Veistu hve freista skal?
Veistu hve biðja skal?
Veistu hve blóta skal?
Veistu hve senda skal?
Veistu hve sóa skal?

Betra er óbeðið
en sé ofblótið,
ey sér til gildis gjöf.
Betra er ósent
en sé ofsóið.
Svo Þundur um reist
fyr þjóða rök,
þar hann upp um reis,
er hann aftur of kom.

Heimild: Eddukvæði. 1998. Gísli Sigurðsson sá um útgáfuna og ritaði skýringar. Vísa 80 bls. 35. Vísur 138-45 bls. 48-50. Reykjavík, Mál og menning.