Landnámið

Íslandsskort
Stækkaðu myndina enn meira
Íslandskort Þórðar Þorlákssonar Skálholtsbiskups, frá 1670, nú varðveitt í safni Árna Magnússonar undir safnmarkinu AM 379 b fol.

Margar ástæður, og oft samverkandi, hafa verið taldar fyrir landnámi á Íslandi. Fyrir hendi var siglingatækni og skipakostur sem dugði til úthafssiglinga, löngun til ferða til frama og fjár, ekki síst ef þröngt var um kosti í heimahögunum en landkostir þóttu ágætir á Íslandi. Sennilegt þykir að hert hafi á landnámi til Íslands um 900, en víkingar voru m.a. gerðir brottrækir úr Dublin árið 902 og um svipað leyti urðu þær breytingar í Noregi, að veldi héraðshöfðingja minnkaði þegar voldugir konungar hófu að leggja stærri landsvæði undir sig og auka skattskyldu með tilheyrandi ófriði innanlands. Noregur var þó fyrst sameinaður undir einn konung á tímum Ólafs helga Haraldssonar (ríkti 1015-1028).

Í sagnahefðinni er landnám Íslands iðulega sagt sprottið af því að landnámsmenn hafi ekki sætt sig við yfirráð Haraldar konungs hárfagra (um 850-930) sem hafði ásett sér að leggja allan Noreg undir sig. Þar er trúlega um sagnaminni að ræða.

Samkvæmt Íslendingabók Ara fróða varð Ísland fullnumið á um 60 ára tímabili, á árabilinu frá 870-930, þ.e. á víkingatímanum (800-1050), sem kenndur er við útrás norrænna sæfara til austurs, vesturs og suðurs frá heimahögunum. Norrænir víkingar stunduðu bæði kaupskap og strandhögg en settu auk þess niður byggðir sínar víða í Evrópu.

Ritheimildir um landnám
Töluvert er skráð í fornum ritum um landnám Íslands enda gefa ritheimildir frá 12. og 13. öld, á borð við Landnámabók, Íslendingabók og Íslendingasögur, auk fornleifa, örnefna og erfðarannsókna gleggri mynd af landnámi og uppruna íslenska landnámsfólksins en þekkist víða annars staðar. Ritheimildir hafa um langan aldur mótað almenna þekkingu á sögu Íslandsbyggðar en þær eru ekki samtímaheimildir heldur skráðar nokkrum öldum síðar. Rétt er að huga vel að tilgangi ritunar þeirra og þeim hagsmunum sem uppi hafa verið við gerð þeirra. Yfirleitt ber heimildum þó saman um að byggð hafi fyrst verið sett niður í Reykjavík og landnáminu stjórnað af norrænu fólki.

Fornleifarannsóknir
Rannsóknir á fornum byggðaleifum hafa á síðustu árum og áratugum veitt mikilvægar upplýsingar um þróun og aldur fastrar byggðar á Íslandi. Tímasetning öskulags frá Heklugosi árið 871 +/- 2, sem nefnt er Landnámslagið, hefur reynst einstakur vegvísir við tímasetningu í fornleifarannsóknum. Elstu byggðaleifar sem rannsakaðar hafa verið, t.a.m. í Reykjavík, liggja flestar rétt ofan við Landnámslagið og þykja benda til þess að orð Ara fróða um upphaf landnáms þar geti átt við rök að styðjast. Nokkrar vísbendingar gefa eldri mannvist til kynna, s.s. byggfrjó og garðlög sem fundist hafa undir Landnámslaginu, en þær vísbendingar eru enn fáar. Þær gætu þó gefið til kynna að fólk hafi sest að, eða dvalið tímabundið, í landinu nokkru áður en hið skipulega landnám hófst.

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð

Frásagnir í ólíkum gerðum Landnámabókar
Landnámabók greinir frá upphafi landnáms á Íslandi, hvaðan landnámsmenn komu, hvaða landsvæði þeir námu, ættum þeirra og afkomendum, en misítarlega. Landnáma á sér reyndar langa og flókna varðveislu- og sköpunarsögu. Texti hennar varðveittur í fimm gerðum, þremur fornum og tveimur samsteypum frá 17. öld. Eldri gerðirnar eru misvel varðveittar, sumar að mestu í yngri uppskriftum eða sem hlutar af samsteypunum.


Frásagnir af fundi Íslands eru mismunandi í Landnámu eftir gerðum. Fyrstir eru ýmist nefndir Naddoður (eða Naddoddur), sem fann landið og nefndi Snæland er hann rak af leið sinni til Færeyja, eða hinn sænski Garðar Svavarsson, sem kannaði landið og gaf því nafnið Garðarshólmi. Sögnin um Garðar er í öllum gerðum Landnámu og virðist vera gömul. Að auki er til frásögn af Hrafna-Flóka Vilgerðarssyni sem fyrstur reyndi búsetu á landinu en gafst upp eftir ársdvöl og litla fyrirhyggju. Honum er eignuð nafngiftin Ísland. Allar Landnámugerðir greina frá því að Ingólfur Arnarson og Hallveig Fróðadóttir, kona hans, hafi fyrst ílengst á Íslandi til frambúðar. Byggð þeirra í Reykjavík við Faxaflóa er talin marka upphaf landnáms sem síðan gekk hratt fyrir sig uns landið varð fullbyggt á nokkrum áratugum.

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina enn meira
Örnefni og eyjar við Kollafjörð og Skerjafjörð, rétt utan við Reykjavík liggja eyjarnar Akurey, Engey og Viðey. (Mynd af Wikipedia)

Veiðistöðin Ísland?
Bent hefur verið á að frásagnir Landnámu um aðdraganda landnáms megi e.t.v. lesa sem táknsögu og þá til marks um að landið hafi fyrst verið kannað, og hugsanlega hafist þar landnytjar sem fólu í sér fasta búsetu, áður en víðtækt og skipulagt landnám hófst. Landshættir við Faxaflóa gætu einmitt hafa verið hentugir fyrir veiðistöðvar, e.t.v. við rostungaveiðar, þar sem fólk dvaldi árið um kring og festi byggð sína smám saman í sessi. Á svæðinu voru næg hlunnindi frá náttúrunnar hendi, s.s. fiski, fugli, eggjum og rekavið, til að framfleyta fólki og styðja við byggð þess á meðan það kom sér upp akuryrkju, skepnuhaldi og engjum til heyja.

Ef föst búseta við Faxaflóa var undanfari viðameira landnáms síðar getur hugsast að við ritun Íslendingabókar og Landnámu, sem leggja áherslu á landnám Ingólfs í Reykjavík, felist viðurkenning á sérstöðu afkomenda hans og táknrænu valdi þeirra sem birtist í þeirri virðingarstöðu sem þeir gegndu fyrstir, hlutverki allsherjargoða við þinghald í landinu.