| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |
 
Forsíða > Sagan > Bókmenning berst til Íslands > Nýr siður - breytt samfélag
 
Sögusviðið »
  Bókmenning berst til Íslands »
  Nýr siður - breytt samfélag »
  Kirkjan kemst á legg »
  Hvar var kennt? »
  Kirkja og höfðingjar »
  Aldur og efni handrita »
  Handritasöfnun og Árnasafn »
Prenta Prentvæn útgáfa

Nýr siður - breytt samfélag

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Kennari les upp úr bók.

Kristin uppfræðsla og skólahald
Með kristni og þróun innlendrar kirkju urðu óumflýjanlega breytingar á íslensku samfélagi, líkt og gerðist í öðrum norrænum löndum. Nýjum trúarbrögðum fylgdi valdakerfi kirkjunnar, undir yfirstjórn erlendra erkibiskupa og páfans í Róm, en auk þess nýr hugmyndaheimur og ný þekking, þar á meðal verkkunnátta í bókagerð og ritlist. Skólar fyrirfundust ekki á Norðurlöndum fyrir kristna tíð, allur lærdómur fór þá munnlega fram en bæði karlar og konur áttu þátt í þeirri uppfræðslu. Eftir kristnitökuna varð þörf á bóklegri menntun og þeim lærdómi fylgdi skólahald, þó með öðrum hætti en nú tíðkast. Námið tók mið af þörfum og kröfum kirkjunnar, m.a. var lögð stund á lestur, skrift og með tímanum bókagerð, til að innlendir menn gætu kynnt sér efni Biblíunnar sem kristin trú byggir á, miðlað boðskap hennar áfram til landsmanna og skrifað upp messubækur og lærdómsrit eftir þörfum.

Valdastéttir á nýjum forsendum
Bókleg menntun leysti munnlega menntun ekki af hólmi því hún stóð efnafólki helst til boða og drengjum miklu frekar en stúlkum. Tiltölulega fáir áttu því kost á þeirri menntun en þeir námu líka fróðleik af vörum spakra manna og kvenna, líkt og önnur ungmenni sem ekki stunduðu bóknám, enda var heimilið um aldir helsti vettvangur barnauppfræðslu. Kunnátta í lestri og skrift fór ekki nauðsynlega saman og sennilega lærðu fleiri að lesa en að skrifa. Smám saman festist menntun og ritmenning kirkjunnar í sessi í landinu og náði áður en varði til fleiri þátta samfélagsins en trúarlífsins eins.

Fyrir tilstilli kirkjunnar varð til innlend klerkastétt skipuð bóklærðum höfðingjasonum. Á Íslandi var hvorki konungur né aðall en ættir þeirra höfðingja sem hösluðu kristni völl í landinu, samkvæmt frásögn Ara fróða af kristnitökunni, urðu áberandi í kirkjustjórn og bókmenningu landsins, ekki síst framan af. Þær ættir tóku ritlistina snemma í sína þjónustu og komu sögu sinni og sjónarmiðum á framfæri í rituðu máli. Skýrasta dæmið eru ættir Oddaverja og Haukdæla sem efldu innlendan lærdóm og valdakerfi kirkjunnar en jafnframt stöðu sína innan samfélagsins.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Þrír dýrlingar og biskup í skrúða úr Teiknibók AM 637 a III fol.

Upphaf bóknáms á Íslandi
Eftir kristnitöku þurfti að koma á fót prestastétt til að stýra helgihaldi í landinu. Tilvonandi prestar, djáknar eða aðrir kirkjunnar þjónar hafa verið settir til bóknáms eins fljótt og kostur var. Fyrst um sinn sáu prestar frá útlöndum um að breiða út trúna, fræða fólk um kristinn sið, syngja messur og kenna prestsefnum. Kennsla þeirra hefur sennilega verið óformleg og miðast við lágmarkskunnáttu en smám saman hefur komist meiri festa á hana og vísir að skólum orðið til.

Víða í borgum Evrópu voru reknir klausturskólar, dómskólar, hirðskólar og einkaskólar en á Íslandi varð skólahald með einfaldara sniði. Tökuorðið ‘skóli’ kemur fyrir í fornum textum en hafði þá víðtæka merkingu og gat átt við um skólastofnun af einhverju tagi, skólahús, kennslu eða lærdóm. Sagt var að biskup eða prestur héldi skóla ef hann tók nemendur í einkakennslu, skólar af því tagi hafa þá verið bundnir lærimeistaranum hverju sinni. Í þeim tilfellum hefur ekki endilega verið um sérstaka skólabyggingu að ræða, hópkennslu eða fasta stundatöflu, heldur lausir eða hentugir staðir verið notaðir þegar tími var ætlaður til kennslunnar. Það fyrirkomulag að prestar tækju að sér nemendur í einkakennslu hélst allt fram á 19. öld, þegar þéttbýlismyndun hófst á Íslandi, og sennilegt þykir að kennsla hafi frá upphafi farið fram með þeim hætti.

Heimildir um skólahald
Fáar frásagnir af menntun og skólahaldi eru í miðaldaheimildum, helst í ritum er varða sögu Íslands og kristni frá fyrstu tíð, t.d. Íslendingabók, Kristnisögu og Hungurvöku en einkum í sögum af innlendum biskupum Heimildagildi þessara verka þarf þó að skoða með hliðsjón af ritunartíma þeirra og tilgangi, sem getur hafa mótað þær lýsingar sem í þeim er að finna. Í biskupasögum frá því snemma á 13. öld er skólahaldi við báða biskupsstóla landsins lýst, þá virðast skólarnir og námsefni þeirra a.m.k. að einhverju leyti sambærilegir við það sem gerðist í Evrópu. Af varðveittum máldögum sést að ýmsar þeirra latnesku kennslubóka sem notaðar voru í klassískum fræðum í Evrópu fyrirfundust í bókasöfnum  klaustra og biskupssetra á Íslandi á miðöldum.

Skólahald og iðkun kristinna lærdómsmennta héldust í hendur við þróun kirkju og kristni í landinu, ýmsar frásagnir af lærðum mönnum sem sóttu nám sitt til útlanda eru t.d. frá fyrstu öldum kristni. Með tímanum risu innlend lærdóms- og menntasetur sem sáu um uppfræðslu í samræmi við evrópska lærdómshefð. Framhaldsmenntun þurfti þó að sækja til annarra landa, allt til þess að Háskóli Íslands var stofnaður árið 1911.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Áhugasamir nemendur skoða eftirgerð Flateyjarbókar hjá safnkennara Árnastofnunar. Á miðöldum höfðu stúlkur ekki sömu tækifæri til náms og strákar.

Farandprestar og trúboðsbiskupar
Heimildir segja frá erlendum trúboðsbiskupum eða farandprestum í landinu fyrstu áratugina eftir kristnitöku. Talið er að meðal þeirra hafi verið tveir enskir menn, tveir saxlenskir, einn írskur og annar norskur, en um aðra, s.s. ermska menn, eru heimildir óvissari. Sumir trúboðsbiskupanna höfðu áður dvalið á Englandi eða stundað trúboð í Noregi eða Svíþjóð. Þykir það til marks um náin tengsl landanna á vestnorræna menningarsvæðinu og mikilvægi þeirra tengsla við innleiðingu kristni í norðri.

Tveir trúboðsbiskupar, Hróðólfur enski og Bjarnharður hinn saxlenski, dvöldu báðir að sögn um nítján eða tuttugu ára skeið á Íslandi. Þeir hafa eflaust átt stóran þátt í að kenna prestefnum grunnatriði bóklegrar menntunar og að draga til stafs, hvort sem þeir stóðu fyrir skólahaldi eða jafnvel klausturlifnaði, eins og hugsanlegt er í tilfelli Hróðólfs.

Kristin trú hefur einkum verið kynnt landslýð með trúboði í verki og áhersla lögð á helgihaldið, með messusöng og latínulestri, auk predikana og frásagna af heilögu fólki á móðurmálinu, til að boðskapurinn skilaði sér. Kirkjustjórn og lærð trúfræðileg menntun lágu sennilega í láginni framan af og voru varla á hendi trúboðsbiskupanna. Hlutverk þeirra var fyrst og fremst að fræða alþýðu og upprennandi klerka um innihald og iðkun kristinnar trúar.

Uppfræðsla almennings
Kristindómsfræðsla á miðöldum miðaðist við að fólk gæti tekið þátt í guðsþjónustu og tilbeiðslu kirkjunnar. Fræðslan fór fram heima fyrir og við messur eða annað reglubundið helgihald en eftirlit með kunnáttu fólks t.d. við fermingu og skriftir. Í Kristinna laga þætti Grágásar er ákvæði um skyldunám fulltíða fólks, allir ‘er hyggindi höfðu til’ áttu að kunna Faðir vor (Pater noster), trúarjátninguna (Credo in deum) og að skíra barn skemmri skírn, í síðasta lagi við 12 ára aldur. Utanbókarlærdómur hefur dugað vel til þessa og ekki þurft lestrarkunnáttu til. Með kristinrétti Árna Þorlákssonar biskups, sem lögtekinn var 1275, bættist Maríubæn (Ave María) við þá kunnáttu sem fólk átti að hafa náð við 7-12 ára aldur.

Námsefni presta og annarra klerka
Í anda menntastefnu Karlunga voru málfræði, guðfræði og söngur helstu námsgreinar verðandi presta, sem tóku sjö vígslustig að þeim áfanga. Tímatalsfræði þurftu þeir líka að þekkja til að geta reiknað út, og útskýrt, hvernig færanlegar hátíðir, s.s. páskar og hvítasunna, dreifðust yfir kirkjuárið. Latína var viðfangsefni málfræðinámsins enda undirstaða frekara náms og grundvöllur fyrir lestri lærdómsrita. Biblían hafði snemma verið þýdd á latínu, mál rómversk-kaþólsku kirkjunnar, og lestur og útskýring hennar var meginviðfangsefni guðfræðinnar. Prestsefni þurftu auk þess að kunna allt helgihald og kirkjulegar athafnir, þ.e. messur og tíðir, alls kyns vígslur og aðra þjónustu við söfnuðinn, s.s. skírn, skriftir, hjónavígslu og líksöng. Þeir lærðu að syngja eftir einföldum nótum og Davíðssálmana, sem voru meginuppistaða tíðasöngs, áttu þeir helst að kunna utanbókar.

Saltarar, bækur með Davíðssálmum eða öðrum sálmum og yfirleitt líka nótum, voru algengar námsbækur við lestrar- og skriftarkennslu víða í Evrópu og sennilega einnig á Íslandi. Ýmsar skriftaræfingar og pennaprufur, reyndar oftast frá seinni öldum, finnast allvíða í íslenskum skinnhandritum, ekki þó síst í lögbókarhandritum sem eru mörg varðveitt frá miðöldum.

Smelltu á myndina

Innlend bókagerð
Þær bækur sem notaðar voru við helgihald í árdaga kristni í landinu hafa verið erlendar, a.m.k. á meðan landsmenn kunnu lítið til verka við bókagerð, og margar hafa eflaust borist til landsins með trúboðs- og farandprestum. Bjarnharður hinn bókvísi Vilráðarson, enskur trúboðsbiskup sem kom til Íslands um 1016 fyrir tilskipan Ólafs helga Haraldssonar Noregskonungs, hefur af viðurnefninu að dæma einmitt getað frætt landsmenn um lestur, skrift og jafnvel bókagerð.

Er tímar liðu öðluðust Íslendingar vald á bókagerð og tóku að skrifa upp eigin bækur. Í Hungurvöku, sögu Skálholtsbiskupa sem skráð var laust eftir 1200, er elsta frásögn um íslenska bókagerð í þágu kirkjunnar. Þar segir frá því að Klængur Þorsteinsson, biskup í Skálholti 1152-74, hafi látið rita tíðabækur, miklu betri en voru til áður. Elstu varðveittu handritabrot, sem eru tímasett um 1150, staðfesta að innlend bókagerð hafi verið hafin á þeim tíma. Reyndar er talið að Íslendingar hafi byrjað bókritun nokkuð fyrr, eða á öndverðri 11. öld, fyrst í stað á latínu, máli kirkjunnar, en á 12. öld voru textar ritaðir á móðurmáli, bæði þýddir og frumsamdir.

um farandpresta og trúboðsbiskupa
um vígslustig klerka á miðöldum