Rúnir

Á landnámsöld skrifuðu norrænir menn rúnir. Þær voru ristar eða höggnar í hart efni; tré, horn eða stein, enda einkennast þær af beinum línum og hvössum hornum. Rúnaristur voru stuttorðar og oft notaðar til að merkja hluti, í stutt skilaboð eða til grafskriftar. Langir textar eins og lög eða sögur hafa ekki verið skráðir með rúnaletri. Bæði hefði það verið seinlegt og efnið óþjált enda til lítils að eiga sögu varðveitta á 15 steinum. Þess vegna byggðist margt á munnlegri geymd en það er þegar fróðleikur, kveðskapur og sagnir varðveitast í minni og ganga mann fram af manni.

Það var fyrst þegar kristin bókmenning hélt innreið sína sem Íslendingar fóru að skrifa niður lengri texta á bókfell með bókstöfum.

 

Smelltu á myndina!

Trérekan frá Indriðastöðum

Fáar rúnaristur hafa fundist á Íslandi, flestar á legsteinum frá 14. - 17. öld. Elsta rúnaristan sem varðveist hefur er talin vera frá 12. öld og fannst á reku sem grafin var upp úr mýri á Indriðastöðum í Skorradal 1933. Hún er geymd í Þjóðminjasafninu. Á rekunni stendur:

Páll lét (gera) mig Ingjaldr gerði

Líklega er sagnorðið gera undanskilið en getið er um eigandann og handverksmanninn sem gerði rekuna.


© LogS
Prentað af fræðsluvefnum Handritin heima