| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |

 

Upphaf ritunar »
  Sérstæð menning »
  Menntun »
  Ritun á norrænu »
  Fjölbreytt sagnaritun »
  Bækur og valdhafar »
  Blómaskeið »
  Aldaskil »
  Handritasöfnun »

 

 

Forsíða > Sagan > Sérstæð menning > Ritun á norrænu

 

Prentvæn útgáfa

Ritun á norrænu

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina enn meira
Myndatexti

Um menntunarstig lærdómsmanna á 11., 12. og 13. öld hefur nokkuð verið rætt, t.a.m. í ljósi varðveittra rita og frásagna úr fornum heimildum. Handritavarðveislu hér á landi er að vísu þannig háttað að sá merki handritasafnari, Árni Magnússon, hirti nær ekkert um að sanka að sér varðveittum latínubókum, sem voru að líkindum fáar eftir siðaskiptin, og nýtti þær jafnvel í bókband um pappírshandrit sín. Því er ómögulegt að fullyrða nokkuð af handritageymdinni um þann latneska bókakost sem verið hefur í landinu, þó af máldögum kirkna og klaustra megi ráða að hann hafi verið nokkuð ríkulegur. En varðveittir textar á borð við ritgerð Fyrsta málfræðingsins þykja bera órækt vitni um víðtækan lærdóm sem á sér rætur í kristinni lærdómshefð miðalda. Auk þeirrar lærðu þekkingar sem sér stað í uppbyggingu og texta Fyrstu málfræð-iritgerðarinnar er athyglisverð sú staðreynd að í dæmum sínum um breytileika hljóða notar höfundurinn m.a. fornan kveðskap auk annars ríms, sem og goðsagnaefni. Þau dæmi eru vísast sótt í innlenda, munnlega kvæða- og sagnahefð. Af því má ráða að munnleg varðveisla þekkingar og iðkun kristinna lærdómslista hafi verið ástun duð samhliða eftir upphaf ritmenningar.

Viðhorf til tungunnar á 12. og 13. öld
Kristján Árnason hefur haft á orði hversu mikið menningarlegt sjálfstraust megi merkja af ritun Íslendinga á þjóðtungunni og „viðnámsþrótti“ menningarinnar gegn erlendum áhrifum, einkum latneskum. Þá „kokhreysti“ sem birtist í notkun eigin tungu, bæði við innlenda fræðaiðkan, s.s. í málfræðiritgerðunum fjórum og með samningu Snorra-Eddu, sem og í viðamiklum þýðingum sem fólu oft í sér umsköpun texta á borð við Alexanders sögu, tekur hann þó ekki til marks um ómengaða hreintunguhyggju, í hvorugum þeim skilningi sem fræðimaðurinn George Thomas hefur lagt í það hugtak. Thomas, sem gerir greinarmun á tvenns konar hreintunguhyggju, sem kalla mætti annars vegar hrokahreintungustefnu og hins vegar hræðsluhreintungustefnu, tekur nokkuð í sama streng: „Indeed, throughout the Middle Ages, xenophobic purism was a rarity.“ Um upphaf og þróun ritmáls á þjóðtungum, sem víða átti sér stað á s.hl. miðalda og við upphaf endurreisnar, segir Thomas ennfremur:

Late medieval and early renaissance humanism saw a rapid expansion of the instrumental and poetical functions of many of Europe´s written venaculars and the codification of several of them as stable, prestigious and polyvalent, standard idioms. In essence they adopted the classical poetic with its archaising and élitist orientation and were generally well-disposed to borrowings, particularly from Latin and Greek.

Þróun og útfærsla ritmáls á Íslandi varð bæði öllu fyrr og nokkuð á aðra lund en Thomas lýsir erlendis frá, eins og Guðrún Nordal hefur bent á í riti sínu, Tools of Literacy. Guðrún telur einsýnt að á 12. og 13. öld hafi Íslendingar lagt dróttkvæða- og edduhefðina og þar með eigin tungu, að jöfnu við þann forna latínukveðskap sem var hluti af evrópskri, kristinni lærdómshefð:

No particular event or creative work marks a turning point in Icelandic intellectual life around the year 1200. The evidence there is of twelfth-century literary activity indicates the existence of a strong textual culture in Iceland at the time and the wide-ranging learning and writing of the learned community. We can cautiously assert that skaldic verse had already been used in the study of grammatica in the twelfth century and that this was the reason why skaldic verse enjoyed in this period the same exclusive and revered position in Iceland as Latin classical verse in a European context.

Einna skýrustu röksemdina fyrir þessari stöðu dróttkvæðahefðarinnar í tengslum við grammatica telur Guðrún að finna megi í samsetningu varðveittra handrita þar sem málfræðiritgerðirnar fjórar eru allar varðveittar í miðaldabókum sem innihalda einnig Snorra-Eddu. Guðrún telur að þá staðreynd beri að taka til marks um textasamhengið sem þær voru settar í, á þeim tíma sem handritin voru skrifuð. Vert er að hafa í huga að bæði skáldskaparformi og myndmáli dróttkvæða var beitt við umsköpun helgisögu, eins og sést á varðveislu Plácitus drápu í handritabroti frá því um 1200.

Með því að líta á dróttkvæðahefðina sem hliðstæðu hins klassíska latínukveðskapar var unnt að uppræta togstreituna milli kristinnar trúar og heiðins uppruna skáldamálsins. Þá gátu skáld og skrifarar kinnroðalaust ort og ritað dróttkvæði enda koma þau síðan víða fyrir, t.a.m. í málfræðiritgerðum, í sagnaritum, s.s. konunga og Íslendinga sögum, en síðast en ekki síst staðfestist viðhorfið til dróttkvæðahefðarinnar í samningu Snorra-Eddu. Af ritun hennar má ráða að þrátt fyrir uppruna skáldskaparmálsins þótti Snorra allsendis vandalaust að skrifa upp heiðnar goðsögur í kristnu samfélagi. Sama máli gegnir reyndar hvað varðar skrásetningu eddukvæða á bókfell um miðja 13. öld og samkvæmt aldursflokkun Hreins Benediktssonar sýnir handritavarðveislan fram á að ritun konunga sagna og Íslendinga sagna er í það minnsta hafin um og eftir miðja 13. öld. Áhrif fyrrnefnds jöfnuðar urðu enda æði víðtæk að mati Guðrúnar Nordal:

The seemingly easy adoption of skaldic verse in the framework of Christian education would in turn ensure that pagan mythology of the North would in the Icelandic literary context be elevated to the same prominence that classical verse did in the Latin culture. We can surmise that the transference of the theoretical discourse of language from the Latin context to indigenous traditions was of great consequence for the development of Icelandic literature in the twelfth and thirteenth centuries. This bridge to Latin textual culture and classical literature brought traditional verse-making and storytelling in Iceland in direct contact with contemporary currents in scholastic thinking.

Af framansögðu virðist Guðrún gera ráð fyrir að í kjölfar sáttar milli kristinna og heiðinna menningarheima hafi viðhorf Íslendinga um göfugan uppruna eigin tungu ekki einungis náð til tungumálsins, formsins eða málstaðalsins, sem þeir tóku upp við bókritun sína, heldur einnig til efnisins, þ.e. kveðskapar- og sagnahefðanna sem höfðu varðveitt það á munnlegu stigi og fengu nú einnig hlutverk í innan lærðrar bóklegrar hefðar. Kristján Árnason sem hefur tekið undir að Íslendingar hafi „litið á tungu sína sem merkilegan menningararf“ bætir við að „norrænir menn hafi haft sjálfsmynd sem tengdi þá saman og byggðist á tungunni og menningarlegum skyldleika, og þetta samfélag virðist hafa verið orðið til áður en ritöld hófst.“ Í þennan menningarlega skyldleika vísa Íslendingar þegar þeir útfæra ritun sína enn frekar, því auk skráningar fornra kvæða og goðsagna úr heiðni hefja þeir að vinna úr samvestnorrænni sagnahefð með aðferðum kristinnar lærdómshefðar, þeir hefja ritun á sögum Noregskonunga, Danakonunga, Orkneyjajarla, Færeyinga sem og sögu innlendra bændahöfðingja.

Þótt aðferðir Íslendinga á 12. og 13. öld við að stýra máli sínu geti trauðla fallið undir meðvitaða hreintunguhyggju felast óneitanlega í þeim afar ákveðnar hugmyndir um ágæti þjóðtungunnar sem eru mun eldri en sú hreintungustefna sem Arngrímur lærði er oft talinn upphafsmaður að. Aðgerðir þeirra og hugmyndir falla enn og aftur undir stöðustýringu þar er þær varða tungumálið og stöðu þess, einkum þá hvar og hvernig það er notað, sem höfðu varanleg áhrif á ritun í samfélaginu þaðan í frá. Má sem dæmi nefna að skáldamálið forna lifði áfram í rímum, frásagnarkveðskap er upp kemur á 14. öld og var feikivinsæll allt fram á 20. öld en þýðingar franskra riddaraljóða á 13. og 14. öld sem féllu heldur illa að því tungutaki voru fremur færðar í prósaform í anda innlendrar sagnaritunar, eins og Alexanders saga áður. Og um aldir léku Íslendingar á víxl á þessi tjáningarform, ortu rímur upp úr spennandi sögum og skráðu bóksögur niður eftir kvæðum.

Sjá t.d. Sverrir Tómasson. 1988, Gunnar Harðarson. 1989, Stefán Karlsson. 1998/2000, Guðrún Nordal. 2001.
Sjá Andersen, Merete Geert. 1979: 1-3.
Sjá t.d. Gunnar Harðarson. 1989: 14-15.
Sjá Hreinn Benediktsson: 1972: 33-41, Guðrún Nordal. 2001: 21-22.
Sjá Hrein Benediktsson. 1972: 48.
Sjá Guðrún Nordal. 2001: 25-29.
Kristján Árnason. 2004: 396-97.
Thomas, George. 1991: 211.
Íslenskun á Non-xenophobic, archaising, elitist orientation úr glósum frá Kristjáni Árnasyni úr námskeiðinu Mál og samfélag, vorið 2004.
Íslenskun á Xeophobic, etnographic, and reformist orientation úr glósum frá Kristjáni Árnasyni úr námskeiðinu Mál og samfélag, vorið 2004.
Thomas, George. 1991: 210.
Sama: 211. Skáletranir mínar.
Guðrún Nordal. 2001: 10.
Sama: 42.
Sama: 40.
Sama: 7-8 og 22.
Hreinn Benediktsson. 1965: 14.
Guðrún Nordal. 2001: 22.
Kristján Árnason. 2002: 176-177.
Sami. 2004: 375.
Elsta ríman er skráð í Flateyjarbók um 1390.
Sjá Íslenska bókmenntasögu II. 1993: 322, (Vésteinn Ólason)
Sjá Íslenska bókmenntasögu II: 195 og áfram, (Torfi H. Tulinius)
Sjá Mitchell, Steven. 1991: 174-177, fjallar þar um endurnýjun frásagnar- og kveðskaparhefða sem sameinast í rímnakveðskap og samspilið milli efnis rímna og fornalda- og riddarasagna þar sem bæði er sótt og þegið á víxl.

Samantekt

Þegar ritmenningin hafði fest sig í sessi hófst ritun konungasagna, biskupasagna, samtímasagna og Íslendingasagna eins og sést á vitnisburði varðveittra handrita. Elstu textar eru eins og fyrr segir guðsorð, lög og fræðibækur en síðar, eða upp úr 1200 bætast sagnahandrit við.

Í fyrstu var sagnaritun sagnfræði síns tíma. Algengt var að menn leituðu í þær heimildir sem fyrir voru eftir efnivið í nýjar sagnir; arfsagnir, ættartölur, annála, og aðrar bækur sem til voru og bættu síðan nokkuð við frá eigin brjósti. Þessi vinnubrögð þóttu góð og gild sagnfræði. Sagnfræðisjónarmiðið vék fyrir skemmtigildi sagnanna er tímar liðu og þannig þróuðust bókmenntir sem Íslendingasögurnar bera glöggt vitni um.

Gott er að hafa í huga að söguskoðun miðaldamanna var önnur en í dag. Það voru ekki sömu mörk milli sagnfræði og bókmennta og nú eru notuð. Söguskoðun Íslendingasagna er sú að landnámsmenn hafi komið hingað vegna þess að þeir þoldu ekki yfirráð Haraldar hárfagra. Þess verður ekki vart í ritum Arngríms lærða sem eru yngri en skýtur upp kollinum aftur í sjálfstæðisbaráttunni. Hver ætli sé ríkjandi söguskoðun nú á tímum?



Hvers vegna voru þessar sögur skrifaðar?

Íslendingar voru frægir í útlöndum á miðöldum fyrir frásagnarlist og sagnaauð. Þess vegna voru íslenskir menn fengnir til að rita sögur norrænna konunga. Strax á 12. öld voru nafngreindir munkar fengnir til að rita sögur Noregskonunga. Ritun konungasagna tengist sagnfræði, ritun uppruna- eða þjóðarsagna. Ættir konunga sem raktar voru til Nóa eða Adams gáfu tilfinningu fyrir uppruna eða upphafi þjóðar og konungdæmis.


Kaþólskum sið fylgdi mikill átrúnaður á heilaga menn eða dýrlinga. Á messudögum þeirra tvisvar á ári voru sögur þeirra lesnar og sagt frá kraftaverkum þeirra. Þessar sögur voru sagnfræðilegar ævisögur þar sem áhersla var lögð á helgi dýrlingsins. Menn hétu á dýrlinga sér til hjálpar og gáfu kirkjum þeirra áheitin. Því var mikilvægt fyrir Íslendinga að eignast íslenskan dýrling sem stæði nær alþýðunni og til að njóta góðs af áheitum. Erlendar sögur heilagra manna og postulasögur hafa verið fyrirmynd þessara íslensku sagna sem allar fjalla um biskupa.


Sumir hafa haldið því fram að Sturlunga hafi verið skrifuð á tímamótum á Íslandi þegar þjóðveldið var að líða undir lok. Þá hafði geysað mikið ófriðartímabil sem mönnum þótti ástæða til að skrá frásagnir um á bækur. Skrásetjarar voru oftast menn sem sjálfir höfðu verið vitni að atburðunum og þess vegna eru sögurnar e.k. samtímasagnfræði.


Íslendingasögur fjalla um íslenska bændur og höfðingja og deilur þeirra, frá landnámi fram á 12. öld. Markmið þeirra var að segja sögu í stað þess að rekja sagnfræði eins og algengara er í öðrum sögum. Ef til vill er hægt að greina þennan mun helst á því að höfundar Íslendingasagna merkja sér aldrei sögurnar en höfundar a.m.k. nokkurra konungasagna, biskupasagna og samtímasagna eru nafngreindir.

2.2M1 vantar
2.2M2 vantar

2.2mt1 vantar
2.2mt2 vantar

 

 

Um blablabla
Um blablabla
| UM VEF | KRÆKJUSAFN | ORÐASAFN | HEIMILDIR |
:: © hönnun hugrunar 2001 ::