| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |
 
Forsíða > Kennsluefnið > Bókaframleiðsla
 
    Miðlun að fornu og nýju »
  Bókaframleiðsla »
  Handskrifaðar bækur »
  Munur milli handrita »
  Textar og markhópar »
  Gildi handritanna »
 
    Um miðlun sagna »
Prentvæn útgáfa

Bókaframleiðsla

Markmið
Að nemendur þekki efni og aðferðir við bókagerð fyrir daga prentlistar, pappírs og fjöldaframleiðslu.

Til kennarans
Til að leggja grunn að verkefnum um bókaframleiðslu má benda á að sagnaglaðir Íslendingar skrifuðu upp alls kyns sögur, kveðskap og fræði langt fram eftir öldum af ótrúlegri eljusemi. Eftir að pappír barst hingað til lands, nokkru seinna en víðast hvar í Evrópu, varð efniviðurinn ódýrari og því bera yngri pappírshandrit vott um smekk stærri hóps en áður gat leyft sér að festa hugðarefni sín í letur eða safna þeim saman og eignast á bók.

Efnahagur í landinu var góður á 14. öld og frá þeim tíma eru einmitt varðveittar glæsilegar bækur, greinilega skrifaðar af atvinnumönnum, ríkulega skreyttar og úr vönduðu bókfelli. Eftir að svarti dauði gekk yfir í upphafi 15. aldar, árin 1402-4, hrakar verkmenningu í bókagerð. Skinn í bókum frá 15. öld er miklu verr unnið, grófara, þykkara og harðara en í eldri bókum.

Skoða má annálsbrot er greinir frá árunum 1402-4 og gefur innsýn í mannfallið, m.a. í klaustrum landsins sem voru helstu menntasetur þess tíma.

Til viðbótar þeirri umfjöllun sem tíðkast um fornbókmenntirnar í grunnskólum má bæta upplýsingum um þá tækni sem þurfti við bókagerð, t.d. til að verka bókfell, útbúa blek, liti og penna að ógleymdri vinnunni við skriftirnar sem voru í senn tímafrekar og erfiðar. Jafnvel eftir að prenttækni og pappír barst til landsins unnu menn við að handskrifa bækur enda var prentverkið lengst af í þjónustu kirkjunnar sem nýtti hana nær eingöngu fyrir trúarlega texta.