| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |
 
Forsíða > Handritið > Skrifarar > Aðstæður
 
Handverkið »
  Handritalestur »
 
Starfið »
  Aðstæður »
  Vinnubrögð »
  Bókaskreytingar »
  Spássíumyndir »
Varðveisla og gildi »

Prentvæn útgáfa

Aðstæður skrifara

Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Skrifari að störfum á síðu Hamborgarbiblíunnar.

Spássíugreinar sem heimildir
Heimildir um vinnuumhverfi og vinnubrögð íslenskra skrifara eru af skornum skammti þó spássíugreinar einkum frá síðari hluta miðalda, geti gefið hugmynd um aðstæður þeirra og líðan. Erlendar heimildir geta fyllt í eyðurnar að einhverju marki.

Skyggnast má inn í sálartetur skrifaranna með lestri spássíugreina þeirra, sumar bækur eru fullar af athugasemdum ef þeim liggur mikið á hjarta. Feðgar þrír á Vestfjörðum sem uppi voru á 16. öld, presturinn Ari Jónsson og synir hans Tómas og Jón, virðast hafa skrifað mörg handrit og hafa mjög álíka rithendur þannig að oft er erfitt að greina á milli hver hefur skrifað hvað.

Meðal þeirra bóka sem þeim eru eignaðar er rímnahandritið AM 604 4to, sagnahandritið AM 510 4to, helgikvæðhandritið AM 713 4to og lítið handrit með Margrétar sögu, AM 431 12mo. Víða á spássíum þessara handrita, einkum þó í rímnahandritinu, tjá skrifararnir hugleiðingar sínar með bleki á spássíur bókanna. Umkvörtunarefnin eru af ýmsum toga, m.a. ástarmálin, enda stendur í tveimur bókanna: Úti er það, hún unni mér. Vísur og vísnabútar koma enn fremur fyrir á spássíum, þar á meðal eftirfarandi vísa úr AM 604 4to sem lýsir ástandi pennans:

 

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Innsigli Þingeyrarklausturs , miðstöðvar bókagerðar á miðöldum. Innsiglið er í handritinu AM 217 8vo.

Húsakynni
Skrifarastarfið var erfitt enda mikið nákvæmnis- og þolinmæðisverk auk þess sem vinnuaðstæður á miðöldum voru ólíkar því sem fólk á að venjast nú á tímum. Af ótta við að skemma verðmæt handrit voru skrifarastofur klaustranna í Evrópu hvorki upphitaðar né upplýstar á annan hátt en með dagsljósi. Á Íslandi hlýtur þó að hafa verið notað ljós í mesta skammdeginu því ekki var hægt að leggja skriftir alveg af, bréfaskriftir voru t.d. nauðsynlegar allan ársins hring.

Í skrifstofum evrópsku klaustranna var krafist algerrar þagnar til að tryggja einbeitni enda ritun texta mikið nákvæmnisverk. Ekki mátti koma inn og ónáða skrifara með ómerkum athugasemdum eftir að vinna hófst. Skrifarar störfuðu í sérstökum herbergjum eða í almennum vistarverum klaustursins en ekki virðist hafa tíðkast að unnið væri við skriftir í einrúmi þó aðstaða til þess hafi gefist.

Óvíst er hvort aðstæður hafi verið með svipuðum hætti í íslenskum klaustrum enda hefur smæð samfélagsins sett svip sinn á starfsemina. Í samanburði við evrópsk klaustur voru þau íslensku fremur fámenn.

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Myndstafur úr Flateyjarbók GKS 1005 fol. Hér gæti verið á ferðinni skrifari með ferðapúlt á bakinu á leið til vinnu í klaustri.
Af spássíukroti má ráða að skrifarastarfið hafi stundum verið einmanalegt á Íslandi: Nú þykir mér langt einum saman í skrifstofunni stendur á spássíu í AM 433 a 12mo, handriti af Margrétar sögu. Athugasemdin er líklega skrifuð af skrifara á stórbýli því ekki hafa verið sérstakar skrifstofur á smærri bæjum.

Atvinnuskrifarar sem störfuðu utan klaustra, á biskupsstólum og stórbýlum, höfðu eflaust flestir aðgang að sérstökum skrifstofum eins og þessari. Bækur hafa þó líka verið skrifaðar þar sem ekki voru sérstakar vinnustofur, en vinnuaðstæður skrifara hafa sennilega verið betri í híbýlum sem beinlínis voru ætluð fyrir skriftir.

Myrkur og kuldi
Telja má líklegt að bókaframleiðsla hafi að einhverju leyti verið árstíðarbundin og vor, sumur og haust verið ákjósanlegust til skrifta, þegar bjartast var. Eftirfarandi athugasemd á spássíu í rímnahandritinu AM 604 4to bendir e.t.v. til þess að ljósaskiptin hafi þýtt að skrifari hafi þurft að ljúka störfum:

  Nú er myrkur komið mengrund  

Íslenskum skrifurum hefur stundum verið kalt eins og starfsbræðrum þeirra á meginlandinu. Illt er að skrifa í útnyrðingi stendur skrifað í rímnahandritinu AM 604 4to. Aðstæður hafa trúlega verið betri í einkareknum skrifarastofum Evrópu en í klaustrunum og verið getur að sumar vinnustofur íslenskra skrifara hafi verið upphitaðar og skrifpúlt þeirra lýst í svartasta skammdeginu.

Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Gömul gleraugu úr Þjóðminjasafni Íslands (5506)

Atvinnusjúkdómar
Ýmis konar líkamleg óþægindi, s.s. bak- og augnaverkir, sem hlutust af aðstæðum til skrifta, þjáðu skrifarana eins og kvartanir margra í lok bóka og á spássíum sýna. Einn þeirra sem uppi var á 8. öld í Evrópu fer fram á að notendur bókarinnar umgangist hana af varúð og nærgætni því miklar þjáningar liggi að baki gerðar hennar: 

  Ó lánsami lesandi, þvoið hendur yðar og snertið þannig á bókinni, flettið blöðunum mjúklega, haldið fingrunum í góðri fjarlægð frá bókstöfunum. Sá sem ekki stundar skriftir trúir ekki að það sé vinna. Ó hve erfitt er að skrifa: það sljóvgar augun, þrýstir á nýrun og kvelur þar að auki alla liði. Þrír fingur skrifa, allur líkaminn þjáist . . .
 


Þegar þessi lýsing er höfð í huga er ekki að undra að þau líkamlegu óþægindi sem skriftir höfðu í för með sér hafi stundum verið notuð sem yfirbót í klaustrum Evrópu.

Sjónleysi var algengur atvinnusjúkdómur skrifara enda þurftu þeir oft að rýna í texta í lélegri birtu. Fyrir tíma gleraugna var sjóndepurð mörgum hugleikin eins og fram kemur á spássíum rímnahandritsins AM 604 4to: Augnaveikur er aulinn kemur úr penna skrifarans sem ákallar síðan frelsarann sér til hjálpar:Jesús Máríuson, sjá þú til augna þræls þíns.

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Spássíugrein í Margrétarsöguhandriti AM 433 a 12mo.

um skrifara á Írlandi
um merkjamál í klaustrum