| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |
 
Forsíða > Handritið > Skrifarar
 
Handverkið »
  Handritalestur »
  Skrifarar »
  Starfið »
  Aðstæður »
  Vinnubrögð »
  Bókaskreytingar »
  Spássíumyndir »
Varðveisla og gildi »

Prentvæn útgáfa

Skrifarar

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Skrifari við púlt í Flateyjarbók GKS 1005 fol.

Handskrifað efni
Eftir að Íslendingar höfðu tekið rittæknina í þjónustu sína á 11. öld var allt lesefni handskrifað, hvort sem um var að ræða styttri bréfatexta eða stórar bækur. Skrifarar, sérstök atvinnustétt, störfuðu við þessa iðju þó fólk hafi einnig skrifað sér til ánægju, sérstaklega er fram liðu stundir.

Starf skrifarans var vandasamt og tímafrekt eins og flestra þeirra sem komu að gerð bókarinnar á miðöldum. Fyrst þurfti hann að undirbúa skinnið fyrir skriftir með því að marka fyrir línum og dálkum svo skriftin yrði bein áður en hann get tekið sér fjöðurstaf í hönd við skrifpúltið og byrjað að skrifa upp handrit staf fyrir staf.

Atvinnuskrifarar höfðu aðgang að sérstökum skrifstofum og fengu greitt fyrir vinnu sína en áhugaskrifarar unnu launalaust í frístundum og þurftu að láta sér aðstæður heima fyrir nægja til að sinna skrifunum. Þrátt fyrir ólíkar vinnuaðstæður áttu flestir skrifarar það sameiginlegt að þjást af kulda þegar kalt var í veðri og sjá illa í myrkum og illa kynntum híbýlum. En hvers konar fólk fékkst við að skrifa bækur á miðöldum?

Stækkaðu myndina
Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Skyggnst inn í skrifarastofu þýska skrifarans Leonhard Wagner sem situr kuflklæddur við skrifpúltið með glerlaugu á nefinu. Við borðið sitja málarinn Nikolaus Bertschi og eiginkona hans Margareta. Handritið er þýskt.

Skrifarar í Evrópu
Skrifarar störfuðu víða um Evrópu á miðöldum við að skrifa upp bækur á bókfell. Bækur voru fyrst í stað skrifaðar í klaustrum af munkum og nunnum. Bókasöfn klaustranna gegndu mikilvægu hlutverki í daglegri starfsemi þeirra. Nauðsynlegt var að bæta reglulega við nýjum bókum í bókasöfnin og endurnýja þær sem slitnar voru og úr sér gengnar. Klaustrin urðu með tímanum þekkt fyrir bókaskrif sín og ein af tekjulindu þeirra var að skrifa upp bækur fyrir aðila utan klausturveggjanna samkvæmt pöntun.

Þegar háskólum fjölgaði í Evrópu eftir 1200 þurfti skrifara til að fjöldaframleiða ýmiss konar kennslubækur í sögu, lögfræði, guðfræði, læknisfræði og heimspeki. Á sama tíma þurfti einnig skrifara til að rita og skrifa upp margs konar skjöl eins og samninga og yfirlýsingar. Því varð til fjölmenn stétt atvinnuskrifara utan klaustranna.

Þegar tímar liðu störfuðu skrifarar einnig í þjónustu ríkra höfðingja sem vildu eignast bækur. Með tilkomu ódýrara hráefnis, pappírs, á 15. öld höfðu fleiri tækifæri til að skrifa og þá skrifuðu margir áhugaskrifarar bækur til eigin nota.

Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Kennari les upp úr bók

Menntun skrifara
Ákveðinnar menntunnar var krafist af þeim sem unnu við skriftir á miðöldum. Skriftarkunnátta var auðvitað nauðsynleg og ekki spillti fyrir að geta lesið líka. Það var þó ekki skilyrði því lestrar- og skriftarkunnátta fóru ekki endilega saman á miðöldum. Talið er til dæmis að mun fleiri hafi lært að lesa en skrifa fyrr á öldum og því gátu fleiri lesið bækurnar sem skrifaðar voru en skrifað sjálfir. Skriftarkunnátta var því á fárra höndum og menntun skrifaranna sérhæfð.

um kraftaverkasögur af skrifurum
um skrifara í þrældómi