| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |
 
Forsíða > Handritið > Handverkið > Pennar og blek
 
Handverkið »
  Skinnaverkun »
  Bókin undirbúin »
  Pennar og blek »
  Litir »
  Bókband »
  Handritalestur »
  Skrifarar »
  Bókaskreytingar »
  Spássíumyndir »
Varðveisla og gildi »

Prentvæn útgáfa

Pennar og blek

Fjaðrapennar
Pennar voru um aldir gerðir úr fjöðrum og voru fjaðrapennar notaðir til skriftar hér á landi allt frá upphafi ritunar og fram á 19. öldina þegar stálpennar komu til sögunnar.

Í penna voru notaðar fjaðrir stórra fugla, s.s. álfta eða gæsa, en fjaðrir af vinstri vængnum þóttu falla betur að hendinni en fjaðrir af hægri væng. Við pennagerðina voru fanirnar að mestu skornar af fjöðurstafnum og mergurinn dreginn út. Þá myndaðist eins konar 'hylki' eftir endilöngum pennanum, sambærilegt við fyllingar í pennum nútímans. Þegar pennanum var stungið í blekbyttuna gat hylkið fyllst af bleki fyrir tilverknað hárpípukrafts sem dró blekið upp í fjöðrina. Oft var reynt að láta hverja pennafyllingu af bleki endast til skriftar í eina línu í handriti

Pennaoddurinn var hertur í heitum sandi á pönnu og skorinn til áður en skriftir hófust. Skrifarar þurftu síðan að skera pennann reglulega, rétt eins og blýanta þarf að ydda, því oddurinn slitnaði og við það varð skriftin feitari. Pennaskurður var nákvæmnisverk sem þurfti að framkvæma á ákveðinn hátt.

Smellið til að fá lýsingu á pennaskurði úr Uppskriftabók Árnastofnunar >>

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Rauð fyrirsögn og dökkt blek í Svalbarðsbók AM 343 fol.

Blek á bókfelli
Meðfram því að bókfell varð aðalefni í bréfa- og bókagerð var þróað blek sem hentaði við skriftir á skinn. Á miðöldum var hið svokallaða barksýrublek algengast í Evrópu. Það var gert úr blöndu af járnsúlfati og barksýru sem best þótti að vinna úr galleplum , hnúðum sem myndast á eikartrjám utan um egg skordýra sem verpa undir börk trjánna. Gallepli eru afar rík af berkju sem auðvelt er að vinna og þau þykja því kjörin til barksýrugerðar. Þau eru einnig nefnd blekber á íslensku og vísar það heiti til nota þeirra við blekgerð.

Samsetning bleksins virðist hafa verið vandaverk. Stundum urðu stafir svartir og gljáandi, stundum brúnleitari og gæti það hafa farið eftir hlutfalli járnsúlfatsins í blekinu. Á miðöldum var sótbleki stundum blandað við barksýrublekið sem varð þá dökkt, þykkt og upphleypt en litbrigði bleksins gátu annars verið fjölbreytileg, allt frá gráum til brúns eða grænum til svarts.

Barksýrublek inniheldur efni sem dökkna þegar þau komast í samband við súrefni og þess vegna verða þau yfirleitt dekkri á skrifaðri síðu en í blekbyttunni. Agnirnar í blekinu smjúga inn í trefjar skinnblaðsins þannig að skriftin endist vel og erfiðara er að útmá hana fyrir vikið. Við ákveðin skilyrði og á löngum tíma gat það gerst að blekið smygi of langt inn í skinnið og kæmi í gegn hinum megin á síðunni. Ef illa tókst til við blekgerð gat svo farið að blekið æti sig í gegnum bókfellið, þó engin dæmi þess finnist í íslenskum handritum. Á hinn bóginn var vel heppnað blek endingargott og smitaðist ekki út í skinnið umhverfis stafina.

Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Efni til blekgerðar.
Blekgerð á Íslandi
Líklega hafa Íslendingar notað erlent blek við skriftir fyrst eftir að ritlistin barst til landsins en þegar tímar liðu komust þeir upp á lag með að búa til blek úr efnum úr íslenskri náttúru. Sem fyrr segir eru engar lýsingar til á blekgerð á Íslandi til forna en í heimildum frá 17. öld er sagt frá aðferð við blekgerð og er hún talin gömul.

Til blekgerðar hefur verið notað sortulyng, soðið í járnpotti með ólaufguðum víðileggjum, eflaust til að fá e.k. barksýru eða kvoðu. Síðan var sortulitunarlegi bætt við blekið til að dekkja það. Sorta er dökkur mýrarleir sem notaður var til að lita svört klæði en dökkur litur hennar er talinn stafa af járnsúlfati. Þegar blekið hélst í dropa á nögl manns voru yfirborðseiginleikar þess orðnir eins og best var á kosið, þannig að það rynni ekki út á skriftarfletinum heldur smygi hæfilega langt inn í skinnið.

Í íslenskum miðaldahandritum, einkum frá því um 1400 og síðar, er blekið aðeins frábrugðið því sem notað var annars staðar í Evrópu. Stafirnir eru oft svartir og gljáandi, næstum því upphleyptir og því auðvelt að lesa þá þó nokkur hundruð ár séu liðin frá því þeir voru skrifaðir. Ef til vill hefur einhvers konar kvoðu stundum verið bætt í blekið til að fá gljáa í það. Rauðar fyrirsagnir í handritum voru skrifaðar með litarefnum en kálfsblóð hefur aldrei verið notað til skriftar á skinn eins og stundum hefur verið haldið fram.

Smellið til að fá lýsingu á blekgerð úr Uppskriftabók Árnastofnunar >>

 

um aðferðir við að afmá blek
um kolefnisblek