| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |
 
Forsíða > Handritið > Handverkið > Skinnaverkun
 
Handverkið »
  Skinnaverkun »
  Bókin undirbúin »
  Pennar og blek »
  Litir »
  Bókband »
  Handritalestur »
  Skrifarar »
  Bókaskreytingar »
  Spássíumyndir »
Varðveisla og gildi »

Prentvæn útgáfa

Skinnaverkun

Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Hér sést munkur skafa strekkt skinn í ramma með hálfmánalöguðum hníf.

Frá kálfi til bókar
Fyrsta skrefið í bókagerð var að verka skinn í bókfellið. Engar íslenskar frásagnir eru til sem lýsa bókagerð og skinnaverkun á miðöldum en tvennt getur þó gefið vísbendingar um hvernig bókfell var unnið hér á landi. Annars vegar má athuga lýsingar á bókagerð í Evrópu frá miðöldum því að þaðan barst aðferðin til Íslands. Hins vegar er hægt að skoða útlit íslenskra skinnbóka og athuga bókfellið í þeim.

Elsta lýsing á verkun pergaments, eða bókfells á miðöldum er varðveitt í handriti frá 8. öld. Í textanum segir að bókfell sé yfirleitt unnið úr geita- og sauðskinnum í suðlægum löndum en úr kálfsskinni í norðri. Ef það er rétt gæti skýringin verið sú að í kaldara loftslagi hafi menn haft önnur not af gærum og kosið að nýta fremur kálfskinnið, sem var ekki eins hlýtt, í bókagerð.

Líklega hefur myndast ákveðin verkaskipting eða sérhæfing í bókfellsverkun og bókagerð með tímanum. Skinnið var fyrst verkað, strengt í ramma og þurrkað á einum stað en síðan sent annað til frekari vinnslu.

Stækkaðu myndina enn meira Stækkaðu myndina enn meira
Verslun með efni til bókagerðar í ítalskri bók frá Bologna á 14. öld. Tveir menn eru við iðju sína og vinna efni til bókagerðar. Hægra megin stendur pílagrímur.

Skinnaverkun í Evrópu
Fyrsta verk skinnaverkandans var að afhára húðirnar. Algengasta aðferðin var að leggja þær í kalkbað en þá losnuðu hárin nógu vel af skinninu til að auðvelt væri að skafa þau af. Eftir vandlega skolun var skinnið strengt á ramma, skafið og síðan þurrkað. Strekking og þurrkun eru mjög mikilvægir liðir í verkun bókfells og einkennandi fyrir gerð þess.

Þurrkun skinnsins tók mislangan tíma en gæði bókfellsins fóru eftir því hversu vel tókst að stjórna þurrkunarferlinu. Í heitu loftslagi reyndu menn að tefja þurrkunina með því að væta skinnið en í kaldari veðráttu var kalkduft borið á skinnið til að flýta ferlinu.

Þegar skinnið var farið að þorna í rammanum var borið á það þurrt kalk til að leysa upp leifar af fitu og raka en síðan var það skafið með bjúghníf. Gott bókfell átti að vera þunnt, sterkt en samt sveigjanlegt og með sléttu yfirborði. Væri þess þörf var skinnið fægt eða pússað með vikursteini til að fá yfirborðið svo slétt að gott væri að skrifa á það.


Smellið til að fá lýsingu á skinnaverkun úr Uppskriftabók Árnastofnunar >>

Smelltu á myndina til að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Vænar kusur úr Heynesbók.

Bókfellsgerð á Íslandi
Íslensk skinnhandrit frá miðöldum eru yfirleitt mun dekkri en evrópsk handrit. Það stafar að verulegu leyti af mikilli og aldalangri notkun bókanna sem og af geymslu þeirra í sótfylltum og rökum torfbæjum.

Íslensk handrit sem varðveist hafa í Noregi við önnur skilyrði eru t.d. ljósari og í mun betra ástandi en þau sem hlutu vist á Íslandi. Engu að síður virðist hafa verið nokkur munur á verkun bókfells þar og annars staðar í Evrópu sem veldur því að íslenskt bókfell er aðeins frábrugðið evrópsku bókfelli.

Þar sem engar lýsingar eru til á bókfellsgerð Íslendinga á miðöldum er gengið út frá að handverkið hafi í meginatriðum verið hið sama og í Norður-Evrópu. Þó hefur verið bent á mun á evrópsku bókfelli eftir löndum sem stafar af mismunandi aðstæðum, hráefni, efnivið og kröfum til afurðarinnar. Vegna einangrunar og dýrra aðfanga hafa Íslendingar væntanlega lært að nýta þau efni sem náttúran hafði upp á að bjóða, ef til vill hefur jarðvarmi verið nýtilegur til afhárunar sem og gosefni ýmis konar. Eins er líklegt að loftslagið, sér í lagi hin stuttu sumur, hafi haft áhrif á aðferðir og verkunarferli bókfells.

Smelltu á myndina til að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina
Var bókfell verkað úr sauðskinni? Úr Heynesbók.

Helsti munur á verkun bókfells á Íslandi og víðast í Evrópu virðist liggja í aðferðum við afhárun skinna sem yfirleitt voru lögð í kalkbað erlendis. Bókfell varð hvítara fyrir vikið þar sem kalkið gekk inn í skinnið og gaf því ljósara yfirbragð. Sú staðreynd að kalk var hér af skornum skammti á e.t.v. sinn þátt í útliti og gerð íslenska bókfellsins. Þó engum miðaldafrásögnum sé til að dreifa nefna síðari tíma heimildir um skinnaverkun á Íslandi þrjár aðferðir við afhárun skinna, þar á meðal rakstur og rotun, sem gætu hafa viðgengist frá alda öðli en engin þeirra felur í sér að skinnin séu meðhöndluð með kalki.

Íslenskar skinnbækur eru flestar taldar skrifaðar á kálfskinn, sú kenning hlýtur stuðning af þeim sárafáu rannsóknum sem gerðar hafa verið á íslensku bókfelli. Frá fornu fari voru nautgripir aðalbústofn íslenskra bænda hér á landi en síðari hluta 17. aldar gekk nautafár yfir landið sem felldi stóran hluta stofnsins. Búskaparhættir breyttust í kjölfar einokunarverslunar en þá höfðu kaupmenn meiri áhuga á að kaupa fisk, ull og gærur en afurðir nautgripabúanna. Mikil nautgriparækt til forna getur engu að síður rennt stoðum undir þá skoðun manna að íslenskt bókfell hafi að mestu verið verkað úr kálfskinnum.

 

Smellið til að sjá ljósmyndir af skinnaverkun frá Carli Wildbrett í Þýskalandi.
Bókfell er enn verkað á svipaðan hátt >>

um bókfellsgerð á okkar tímum
um notkun bókfells
um illa lyktandi efni við afhárun
um muninn á vellum og parchment